Helvítis kúkalabbar

... það mætti halda að engin ákvörðun línuvarðar með typpi hafi nokkurn tímann verið vafasöm. Fótbolti er nú ekki flókin íþrótt og reglurnar frekar einfaldar; enda liggja vinsældar hennar einmitt þar. En þegar hiti færist í leikinn og hann æsist, þá kemur hinn innri maður betur fram, eins og með öli. Þetta svipar aðeins um of til eftirfarandi xkcd skrítlu...

http://xkcd.com/385/

... en mikið andskoti er erfitt að kenna gömlum hundur að sitja!

Ég held að ég hafi ekki horft á einn einasta fótboltaleik þar sem ákvörðun dómarans var ekki í meira lagi vafasöm. En það er nú hluti af leiknum og gerir hann áhugaverðan.

Hvort einhver er með typpi eður ei, hefur mér ekki fundist hafa nein áhrif á leikskilning, eða lífskoðanir sé út í það farið. Nærtækasta dæmið er unnustan og vinur fjölskyldu hennar:

Mér og unnustunni hefur tekist að karpa og þræta um fótbolta á sama hátt og mér hefur tekist við alla karlkyns vini mína. Hins vegar heimsótti vinafólk hennar okkur í Manchester um árið. Þar var einn amerískur "dúddi" sem gat ómögulega skilið hvernig ég gæti haft gaman af fótbolta þegar sumar dómgæslur væru vafasamar. Að auki þótti honum skrýtið hvernig ég gæti lifað mig inn í leikinn en samt sem áður tekið leikinn hæfilega alvarlega.

Það er einfaldlega vegna þess að fótbolti er "$"#%"%" leikur! Ekkert annað, og að auki eru þetta 22 einstaklingar sem ég þekki ekki rassgat að sparka í uppblásna blöðru.

En djöfull er gaman að horfa á góðan fótbolta... svo framarlega sem maður tapi ekki gleðinni.

Lifið heil,
B


mbl.is Konur kunna ekki rangstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Garga "Áfram Ísland", prjónandi lopapeysu

Peysa_ad_oxlGaman að fá bronsið í dag. Héldum haus á móti Pólverjunum. Við erum með annað besta liðið í heiminum í dag, svo einfalt held ég að það sé. Það var hending ein sem réði því að við spiluðum við Frakkana í undanúrslitunum en ekki í la grande finale. Við erum með alla vega jafngott, ef ekki betra lið en Króatía og öll hin liðin.

 

Jæja, annars er minns kominn á gott skrið með að prjóna eitt stykki lopapeysu. Allt að koma, meira að segja búinn að tengja ermar við bol og er að byrja á munstri á öxlum. Hef náttúrlega prjónað helling af húfum, hosum og vetlingum og fannst tími til kominn að skella mér á peysu. Valdi gott munstur í Lopablaði númer 29 og dreif í þessu. Keypti prjóna og garn og hófst handa. Svo held ég að galdurinn sé að nota tímann eins vel og mögulegt er. Horfi orðið ekki lengur á sjónvarpið án þess að vera með prjóna í hönd. Finnst annað orðið tímasóun, nema myndin sé þeim mun hrikalega betri.

 

Júmsepípoj. Hvernig væri að fara að blogga reglulega? Nei, held mig við svona handahófskenndar færslur. Þetta er sennilega ekki til að fjölga lesendum, en hefði ég áhuga á því þá myndi ég byrja að svara "fréttum" á mbl.is í gríð og erg. Hef ákveðið að láta vitleysuna þar á bæ ekki taka meiri tíma af mínu lífi. Les þó flippið en smelli ekki á hlekki ef fyrirsögnin er furðuleg eða er ekki lýsandi. Að auki er ég hættur að skoða fréttir um samband Brad Pitt og Angelinu Jolie. Þar tókst mér að spara góðan tíma.


Nýr Monkey Island leikur :)

Jibbí kóla, ég bind miklar vonir við þennan leik þar sem fyrirrennararnir voru algjörlega frábærir. Í þeim fyrsta sá Orson Scott Card um samræðurnar sem voru stórgóðar og fyndnar. Ég gæti jafnvel tekið mig til og fjárfest í þessum leik, nokkuð sem ég hef ekki gert í um 19 ár, eða svo.

Hehe, svakalega er maður orðinn gamall; 19 ár síðan. Svipaða tilfinningu fæ ég þegar ég segist vera búinn að veiða með Mumma frænda hátt í 25 ár. En þá verður maður líka að bregða sér í líki Sigfinns gamla í Spaugstofunni.

Sjóðheitur,
B


mbl.is Hreyfiskynjarar kynntir á E3
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sakar að lesa yfir grein áður en hún er birt...

Hvaða kröfur eru gerðar til penna á mbl.is? Að auki má spyrja sig að því hvort greinar séu yfirfarnar áður en þær eru birtar. Slíkt ætti ekki að taka mikinn tíma og myndi forða höfundinum, eða öllu heldur [oft lélegum] þýðandanum, frá hneisu:

"Til er þjóðsaga á svæðinu sem hermir að menn og drekar afkomendur tvíbura og að því hafi þeir lifað öldum saman í sátt og samlyndi."

Á milli orðanna "afkomendur" og "tvíbura" er tvöfalt bil og því grunar mig að þar eigi fleyg orð að koma í stað eyðu. En þessi setning lítur ákaflega illa út. Hér er væntanlega verið að þýða grein og höndunum kastað til verksins.

Svona stíl á ekki að greiða há laun fyrir. Kannski er það vandinn. Jæja, þetta verður síðasta færslan mín um þessi mál. Er búinn að eyða, já EYÐA, allt of miklum tíma í þetta bull; bæði við lestur upphaflegu greinarinnar sem og við þessi skrif.

B


mbl.is Drekaeðlur ráðast á fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að fuðra upp

JesusitaFireHér í Santa Barbara, Kaliforníu, er enn ekki búið að ná tökum á eldinum sem geysar í hlíðunum. Á miðviku- og fimmtudag varð allt vitlaust þegar eldinum fannst vindurinn eitthvað óþægilegur og komst hann á gott skrið. Aldrei hef ég séð eld ferðast jafnhratt og leist bara ekkert á blikuna. Einhvern veginn komst eldurinn yfir hraðbraut, sennilega fljúgandi glóð um að kenna. Annars erum við Íslendingarnir ekki í neinni hættu en mjög margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Svo hafa fleiri hús brunnið og íþróttahús skólans er fullt af flóttafólki. Veit satt að segja ekki hvort það verði af fótboltaleiknum á næsta mánudag.

socal0503

 

 Eins og sést á myndunum þá var þessi eldur gríðarlega stór og komst alla leið inn í mannabyggðir. Í fyrstu var þetta pínulítið svæði sem brann en svo hitti kúkurinn viftuna. En eitthvað er nú að draga úr þessu núna. Sagt er að hagstæðir vindar og kaldara loft leiði til þess að auðveldara sé að ná tökum á þessu. Gott mál.


Skalli?

GloduraugaNei, grín. Ég er ekki kominn með skalla en hins vegar var ég skallaður í fótboltaleik fyrir skömmu. Fékk þetta líka fína glóðurauga. Náði að koma í veg fyrir mestu bólguna með því að kæla þetta af og á í tvo tíma. Hins var ég skallaður á kinnbeinið og því bólgnaði ég ansi mikið að innan og gat því varla opnað munninn. Borðaði af þeim sökum aðeins jógúrt og ávaxtadrykki í tvo daga. Er þó að jafna mig og get borðað dauð dýr á ný.

 

Sá Barcelona mala Real Madrid á laugardaginn síðasta. Hvílíkur leikur! Var staddur á breskum pöbb með Grace og Tomàs. Allt ætlaði um koll að keyra þegar mörkunum var raðað inn. Gríðarlega gaman að horfa á svona leiki með öðru fólki.


Frisbígolf o.fl.

Jibbíkóla. Kominn aftur til Kaliforníu eins og æði margir hafa bent mér á. Er orðinn elgtanaður eftir hjólreiðar, hlaup og síðast en ekki síst frisbígolf. Er hér um frábæra íþrótt og tómstundaiðju að ræða. Hvet fólk til þess að prófa:

http://folfis.blogspot.com/ á Íslandi,

diskarnir: http://www.innovadiscs.com/og

http://www.pdga.com/ fyrir ýmislegt tengdu íþróttinni.

Annars kaupi ég diskana mína í gegnum http://www.discgolfcenter.com/ .

 Svo dró tið tíðinda í janúar á 9 holu IV vellinum, sem geymir reyndar mjög stuttar brautir, þegar ég fór holu í höggi, eða réttara heldur holu í kasti. Týndi reydnar þeim diski þremur dögum seinna í síki á 18 holu Evergreen vellinum. Það er á holu 10 sem diskar týnast gjarnan. Týndi einmitt einum hvítum fyrir tveimur vikum. Ég merki diskana í bak og fyrir, set íslenska fánann og netfang framan og aftan á diskana ásamt nafni á um 10 stöðum. Fékk svo skeyti úr síma einhvers dúdda sem hafði fundið hann og látið mig vita. En þegar ég komst loks í að hringja í hann var hann ákaflega miður sín og sagðist ekki vera með diskinn minn lengur. Þegar hann var að labba til baka á einni brautinni sá hann gaura vera að leita að diski á sama stað og hann hafði fundið diskinn minn. Spurði hann þá hvort þá vantaði hvíta gasellu með fána á. Jú, það kom heim og saman, þeir sögðust einmitt eiga þann disk, tóku diskinn og þökkuðu fyrir! Með íslenska fánann bak og fyrir! Þetta eru durtar og dusilmenni sem tóku diskinn minn og óska ég þeim krabbameini í eistum. Gaurinn sem fann diskinn minn var auðvitað miður sín og sagðist myndu ganga betur úr skugga hvort réttur eigandi væri, næst þegar hann finnur disk. En ég þakkaði honum hins vegar vel fyrir og sagði að svona framkomu gauranna vildi maður ekki gera ráð fyrir, heldur væntir meiri heiðarleika af fólki.

Alla vega, einhverjir eru að nota disk með nafni mínu á 10 stöðum, netfangi og íslenska fánanum bak og fyrir. Magnað að hafa góða samvisku í slíkt. Nú vita 15 félagar mínir af þessu og þeir þekkja diskana mína mjög vel. Þeim þykir gaman að gera grín að mér fyrir að merkja þá svo vel, en allt kom fyrir ekki.

 Þennan póst hef ég ætlað að skrifa í um einn og hálfan mánuð. Skemmtilegt hvað það tekur langan tíma að koma sér að verki. Lofa engu um áframhaldandi ritræpu. Yfir og út...


Ísland

Heima er best. Kominn til landsins og nýt snjósins í botn. Spilaði á píanóið mitt í dag enda búinn að sakna gripsins. Nokkrar flugur hafa verið hnýttar og hlustað á góða músík. Eldaði í kvöld fjórar bleikjur og tókst fantavel til. Svo má jólamaturinn fara að vara sig, sem og nammið...

Hvít jól

Ég vil hvít jól þetta árið. Ekki fæ ég ósk mína uppfyllta hér í Kaliforníu og því þarf ég að fara heim á klakann. Kem þann 17. desember.

Svo er aðalstuðið fólgið í því að skella sér upp í flugvél um eftirmiðdaginn þann 1. janúar á nýju ári. Það verður upplifun.

Miðinn var mjög ódýr. Ekki.

Hlakka mikið til að hitta vini og vandamenn. Sjáumst hress og kát, það þýðir ekkert annað.


Eldheitar kosningar...

Alveg magnað að Obama karlinn hafi náð kjöri. Og það með yfirburðum. Fór í afmælis-/kosningateiti hjá einni stelpu í deildinni og var skálað í kampavíni þegar ljóst var hvert stefndi. Mjög skemmtilegt kvöld. Einnig var getraun þar sem fólk átti að lita fylking rauð eða blá eftir því hvorum frambjóðandanum þau féllu í hlut. Er skemmst að segja frá að ég var (ásamt tveimur öðrum Könum) efstur á lista þar sem aðeins skeikaði einu fylki. Þar sem ég er ekki frá Ameríkulandi þá finnst mér ég hafa unnið.

 Annars voru magnaðir skógareldar hér í síðustu viku. Á meðfylgjandi mynd má sjá hversu heitt okkur varð! Nei, bara grín. Þetta er ekki húsið okkar en aftur á móti er þetta hús bara rétt hjá miðbæ Santa Barbara. Frekar spúkí að yfir hundrað heimili í Montecito (þar sem Oprah og John Cleese eiga heima) hafi brunnið til kaldra kola. Hann Rob Lowe missti víst húsið sitt, greyið.

 

CoolbrookBrennur

Á fimmtudaginn fengum við á Coolbrook lane okkar fyrsta flóttafólk. Helmingur stelpnaskarans úr Hausdorff (gælunafn hússins þeirra) gistu hjá okkur þar sem mikill reykur og aska gerði það að verkum að óþægilegt var að anda inni hjá þeim. Þær Ellie (í stærðfræðideildinni og er kærasta Jons sem leigir með okkur) og Sonja (önnur stelpa í stærðfræðinni, eða réttara sagt kona þar sem hún er yfir þrítugt hehe), gistu hjá okkur á fimmtudaginn. Við fengum reyndar eitt stykki kött í þokkabót en honum skelltum við inn til Jons svo að hann skítaði bara út teppið hjá honum. Nei, ég segi nú bara svona. Kötturinn er fínn, hann skiptir hins vegar um öll líkamshár á um það bil viku fresti.

 

Er byrjaður að spila tennis við liðið í deildinni og gengur frekar illa. Held að ég hafi verið betri í Svíþjóð þegar ég var 7 ára.


Næsta síða »

Um bloggið

"Ef ég sé með hattinn, kemst ég sko örugglega í stuð"

Höfundur

Baldvin Einarsson
Baldvin Einarsson
Tón-, fræða- og matgæðingur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband